23.10.06

Nýr linkur
Hlutirnir gerast hægt á þessari síðu og sem afleiðing af því hef ég fyrst nú látið verða af því að bæta inn tengli á sólskinsfíflið. Fífl það er þekktara undir nafninu Stiftamtmaðurinn.
Fífl þetta er tiltölulega nýbyrjað með þessa síðu en er þó enginn nýgræðingur í bloggi þar sem kommentakerfi annarra manna bloggsíðna hafa verið vettvangur málefnalegra skoðanayfirlýsinga þess undanfarin misseri. Téð fífl er annars líka þekkt af því að fremja hryðjuverk í skjóli nætur og semja ljóð í annarra manna nafni í þeim tilgangi einum að lýsa upp grámyglulegan hversdagsleika almúgans.
Eitt er víst að sólskinsfíflið er allavega algjört fífl og svei mér þá ef það kemst ekki auðveldlega með tærnar þar sem keðjufíflið hefur hælana, eða stendur því jafnvel jafnfætis.

21.10.06

Nýr markmaður semur við Fram!
Voru einhverjir að skemmta sér í nótt?
http://fram.is/frettir.asp?act=1&nid=2825&did=5
Tjah, maður spyr sig.

13.10.06

Flugmóðurskip - tundurspillir - friðarspillir
Hafið þið pælt í því að Yoko Ono kemur hingað til lands í vikunni og boðar frið og spjallar um friðarsúlu sem hún ætlar að reisa í Viðey...og hvað gerist þá? Jú, Bandaríkjamenn mæta á svæðið og stilla upp einu stykki risavöxnu flugmóðurskipi í Sundahöfn og blokka þannig sýn höfuðborgarbúa á Viðeynna. Táknrænt? Það má segja það.
Að gefnu tilefni skal tekið fram að ég hef ranglega verið nefndur kommúnisti.
Tilviljun á tilviljun ofan
Þið munið kannski eftir sögunni minni góðu um tilviljunina miklu þegar ég hitti hann Skarpa í Ikea um daginn (ef ekki þá getið þið skrollað aðeins neðar).
Allavega þá náði þessi tilviljun nýjum hæðum í dag þegar ég brá mér í hina nýju IKEA verslun (takið eftir IKEA, hvar ég rakst á Skarpa eftir að hafa ekki séð hann í ein fimm ár eða svo). Hvern haldið þið að ég hitti svo í dag í nýja IKEA? Jú það var rétt hjá ykkur... engan annan en Kristján Pál. Tilviljun? Ég er farinn að efast um það.
Hvað um það þá átti ég dágott samtal við Kristján Pál og einstaklega gaman að hitta þann mann.
Bless.

12.10.06

Sexy beast
Sá einhver Togga og drengjakór Breiðholts í Kastljósinu áðan? Þeir fluttu afar sniðugt lag sem bar heitið Sexy beast. Sérstaklega var drengjakórinn efnilegur og áheyrilegur.
Allavega þá verður hress á Toggi á Airwaves í ár.
Nóg um það hrmmpfff...

10.10.06

Já þessi síðasta færsla var nú aldeilis áhugaverð.

Hér kemur góð saga og ekki síður áhugaverð:
Í gær hitti ég dreng sem ég æfði handbolta með í Fram fyrir svona tíu árum síðan. Þekkti ég drenginn ekki mikið þá og ennþá minna í dag enda hef ég sennilega ekki séð hann á þessum tíu árum sem liðin eru. Hvað um það þá tókum við tal saman og spurðum frétta. Ég spurði hann hvað væri að frétta af ákveðnum drengjum sem æfðu handbolta og fótbolta með Fram á sínum tíma en hafa síðan lent í ýmsu veseni og vandræðum. Hann sagði mér sögu þessara drengja sem margir þekkja undir nöfnunum Skarpi og Kristján Páll.
En af hverju er þetta svona áhugavert kynnu margir að vera að velta fyrir sér núna. Jú vegna þess að tíu mínútum eftir að þessu samtali mínu lauk var ég staddur í IKEA ásamt Heiðu minni og hvern hitti ég þar nema Skarpa. Ég hef ekki séð drenginn í einhver fimm ár!!! Ef að þetta er ekki fáránleg tilviljun (svipað og látúnsbarkinn) þá veit ég ekki hvað.

Já kæru lesendur ég vona að þessi áhugaverða saga hafi ekki valdið ykkur vonbrigðum. Hver veit nema hún reynist svo áhugaverð að hún fái að tróna hér efst á síðunni jafnlengi of síðasta færsla.