28.4.05

Eldur í Framhúsinu!!!
Ég var rétt í þessu að koma neðan úr Safamýri (mekka knattspyrnunnar) og skemmst er frá því að segja að það er kviknað í íþróttahúsi Fram. Logaði glatt í þaki hússins og allt tiltækt slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var mætt á svæðið. Framkvæmdir eru í gangi við nýtt félagsheimili Fram en nýja heimilið er tengt við íþróttahúsið. Svo virðist sem kviknað hafi í þakklæðningu íþróttahússins út frá einhverjum framkvæmdum, sennilega hefur einhver ekki kunnað nógu vel með logsuðutæki að fara. Þetta eru sorgarfréttir og fyrsta manneskjan sem ég hitti á vettvangi var Þura (Thuram) og var hún í uppnámi og alls ekki sátt.
Á laugardaginn stóð til að halda vorfagnað Fram í íþróttahúsinu og setur þessi atburður sennilega strik í þann reikning. Slökkviliðsmenn þurftu að rífa hluta af þakinu og sprauta vatni inn í íþróttasalinn svo gera má ráð fyrir að einhverjar skemmdir hafi orðið á gólfi hússins. Í tengslum við vorfagnaðinn á laugardaginn átti að halda árgangamót á milli gamalla leikmanna Fram. Það gæti því farið svo að bið yrði á því að við fengjum að berja augum kempur á borð við Einar Tönsberg (32 ára).

27.4.05

Hamingjuóskir!
Mig langar til að óska tveimur mönnum til hamingju. Í fyrsta lagi við ég óska Gústa kallinum til hamingju með 24 ára afmælið og jafn vel enn frekar vil ég óska Brundalove til hamingju með að muna eftir afmælinu, það er ekki á hverjum degi sem slíkt gerist. Auðvitað gerist það ekki á hverjum degi að Brundi muni eftir afmæli einhvers enda efast ég um að hann þekki 365 einstaklinga svo vel að hann viti hvenær þeir eigi afmæli. Réttara væri að segja að það gerist ekki á hverju ári, jafn vel áratug að Brundinn muni eftir afmælisdögum. En batnandi mönnum er best að lifa segir máltækið.
Jæja svo er það bara Chelsea-Liverpool í kveld. Held að Chelsea vinni en það væri samt sniðugt ef Liverpool yrðu Evrópumeistarar og kæmu þannig í veg fyrir að vinir þeirra í Everton kæmust í Meistaradeildina á næsta tímabili.

18.4.05

Slakt
Var að koma úr bíóferð ásamt svörtum sauð. Sáum myndina Hús fljúgandi rýtinga. Ekki verður mælt með þeirri mynd hér. Við hliðina á sauðnum svarta sat hinn gamalkunni dómari Kobbi og var það ekki til að auka skemmtanagildi myndarinnar. Einhverjir lesendur síðunnar kannast eflaust við hann sem manninn sem dæmir flesta utandeildarleiki í fótbolta og aðrir muna eflaust eftir atviki sem varð fyrir nokkrum árum í leik hjá 2. flokki Fram. Kobbi þessi dæmdi þá leik hjá þeim góða flokki og var það slakur að hinn dagfarsprúði liðstjóri, Brynjólfur Biskup, sá sig knúinn til að æða inn á völlinn með það að markmiði að stúta Kobbanum. Fjóra fíleflda karlmenn þurfti til að halda aftur af Biskupnum.
Þessi saga var betri myndin sem við sáum og það segir nú sitt.

17.4.05

Stóð ekki lengi yfir
Adam var ekki lengi í paradís, Ameobi minnkaði muninn strax í næstu sókn eftir þriðja mark United. En hvað um það, United á eftir að salta þetta.
Slátrun!
Í þessum skrifuðu orðum er United að slátra Newcastle í bikarnum 3-0. Gaman að þessu. Svo er það bara Arsenal í úrslitunum. Bara létt.

11.4.05

Hvaða fnykur er þetta?
Ansi magnað þykir mér það sem talað er um í Mogganum í morgun. Þar kemur fram að Sony hafi sótt um einkaleyfi á tækni sem geti gert fólki mögulegt að finna bragð og lykt úr bíómyndum. Tækni þessi felur það í sér að ákveðin taugaboð eru send til heilans og það framkallar þessar skynjanir. Taugaboðunum er komið af stað með einhverjum hljóðbylgjum. Sony-menn segja að þessi tækni geti jafnvel gefið blindu og heyrnarlausu fólki tækifæri til þess að sjá og heyra og þetta hefði því bæði læknisfræðilegt og afþreyingarlegt gildi. Skemmtilegt.
Jæja einn veggur kominn upp og annar á leiðinni. Segiði svo að ekki renni múrara- og húsasmiðablóð í æðum.

8.4.05

Allt að gerast
Já nú er allt að gerast. Maður er bara búinn að standa í miklum fjárfestingum, kaupa milliveggjaefni og múrblöndu og ég veit ekki hvað og hvað og nú verða sko byggðir veggir. Einn góðan veðurdag munu einhverjir lesendur þessarar síðu sennilega halla sér upp að þessum veggjum, hugsanlega detta á þá (eða hlaupa á þá (Monster)) og því mikilvægt að þeir séu traustir. Já þetta var nú skemmtileg hugleiðing um milliveggi.
Megas sextugur í gær, páfinn jarðaður í dag og Kalli að fara að gifta sig á morgun. Hvað ætli gerist á sunnudaginn? Maður spyr sig.
Annars hvet ég alla til að fylgjast með þættinum hans Hemma Gunn á næstunni. Ekki sökum skemmtanagildis þáttarins heldur vegna þess að heyrst hefur að Atli og Tumi (celeb) hafi átt magnaða samvinnu við þá félaga Eika Hauks og Bjartmar Guðlaugs í einum þáttanna sem sýndur verður á næstunni.
Jæja ég bið að heilsa og hvet alla til að mæta á Fram-ÍBV í handboltanum í kvöld (ég veit alveg að þið mætið ekkert).

7.4.05

Meistarinn sextugur!
Jú Meistari Megas er sextugur í dag og við hæfi að óska honum til hamingju með það. Ég veit fyrir víst að hann er dyggur lesandi þessarar bloggsíðu en það tjáði hann mér í samtali okkar á öldurhúsi hér í borg fyrir nokkrum misserum síðan.
Sjálfur á ég nokkra diska með Meistaranum, einn þeirra hefur verið týndur um tíma og ætla ég í tilefni dagsins að leita að honum.
Jæja ég er farinn að hlusta á lög eins og Tvær stjörnur og Tröð og fleiri góð.
Lifi Meistarinn!!!