25.7.03

Búmm búmm halló halló!

Í kvöld fór fram fjórða flokkstjóramót sumarsins. Mætingin var mjög góð, allir mættir nema Jóna. Í þetta skiptið var keppt í Trivial. Dregið var í lið og lenti ég með Hagnaðinum. Úrslitin voru þar með ráðin áður en spilið hófst því þegar Meistarinn og Hagnaðurinn leggja saman krafta sína verður afraksturinn MAGNAÐUR! Sigur okkar var talsvert öruggur og ónefndur Bjarni kom með þá kenningu að við hefðum unnið vegna þess að við vorum eina liðið sem samanstóð eingöngu af karlmönnum. Góð kenning en hvort hún er rétt er annað mál. Fræddist ég um eitt og annað t.d. að höfuðborg Zimbabve er Harare og er Bruce Grobbelar eflaust ánægður með það. Hmm...yes.

Ég á að fara í sumarpróf 19. og 20. ágúst og var svona að velta því fyrir mér hvenær maður ætti að fara að huga að lærdómi. Gaman væri að fá ráðleggingar og skemmtilegt ef einhver gæti jafnvel miðlað af reynslu sinni af sumarprófum. Ég er nefnilega ekki alveg að nenna að fara að pæla í þessu strax. Er ekki nóg að taka bara nokkra daga í þetta? Ha?

Nú styttist í það að hnakkadagar mínir séu taldir. Á morgun hef ég uppfyllt skilmála áskorunarinnar og haldið þetta út í mánuð. Á laugardaginn ætlar hún Jóhanna svo að klippa mig. Fylgist spennt með útkomunni en mér skilst að næsta leigubílstjórasaga úr Breiðholtinu, sem lesin verður í þætti Valtýs Björns, fjalli um að ég sé enn kominn með nýtt útlit. Manúela og Bjöggi hittust fyrir tilviljun á Hverfisbarnum og Buffhrúturinn kominn með nýja klippingu – stórfréttir. Svo var ég að heyra að Logi Bergmann væri skilinn og að Jónsi í Svörtum fötum væri að þjappa Svavar Örn tískulöggu. Rosalegt!

Ef einhver er með slúðrið á hreinu er það nýjasti bloggarinn hún Harpa. Harpan er farin að fokka í liðinu og því best að fara að passa sig. Síðustu daga er ég búinn að mæta í Hagnaðarsetrið í veislu í hádeginu. Það er bara veisla!!! Nú dettur mér í hug einn góður Gumma Torfa frasi “Maður kúkar bara í hádeginu” en hann á kannski ekki svo vel við... Harpan fær allavega link hér til vinstri. Þá vil ég einnig benda fólki á að lesa ferðasögu Hagnaðarins. Þar segir Hagnaðurinn frá ævintýrum sínum á Benidorm en þess má geta að ég hef ákveðið að skella mér þangað í október, eftir tímabilið. Fróðlegt er að lesa sögu Hagnaðarins m.a. vegna þess að hann gisti á sama hóteli og ég mun gista á þ.e.a.s. ef að einhverjir brjálaðir Baskar verða ekki búnir að sprengja það í loft upp.

Að lokum er vert hlaða lofsyrði á Kidda Tomm. Kiddi, betur þekktur sem Kóngurinn í Árbænum, hefur undanfarið gerst duglegur við að lána mér kvikmyndir sem ekki eru komnar í bíó. Ég hef þegar fengið Bruce Almighty og Pirates of the Caribbean lánaðar. Báðar reyndust þær vera nokkuð góðar og ber að fagna því.
Á þriðjudaginn fór ég í svo í bíó. Myndin var ekki jafngóð og þær tvær ofantöldu en átti þó sína spretti. En myndin er ekki aðalatriðið þegar maður fer í bíó eins og einhver benti á og ég skemmti mér mjög vel. Meira af þessu :)
Kóngurinn kenndi mér einnig nýtt trikk um daginn og er hann því almennt að gera góða hluti. Við erum KR KR og berum höfuðið hátt! HA? Hafið þið heyrt söguna af Veigari Páli og Arnari Gunnlaugs? Jæja L á þetta rugl.

16.7.03

Hitabylgja
Veðrið í dag var algjör snilld. Sól og 20 stiga hiti enda var maður ber að ofan nánast allan daginn og er því orðinn hrikalega dökkur eins og sönnum hnakka sæmir. Staðan í skoðanakönnuninni varðandi klippinguna mína er annars sú að 45.5% vilja að ég fari í klippingu. Þar af segja 36.4% að þetta sé mesti viðbjóður sem þau hafa séð. 54.5% aðspurðra vilja hins vegar ekki að ég fari í klippingu og þar af segja 40.9% "nei, ertu brjálaður Skjöldur?" en aðeins 13.6% telja þetta drulluflotta klippingu. Það sem stendur þó upp úr í þessari könnun er að engum þ.e. 0.0% gæti ekki verið meira sama. Þetta er sem sagt klipping sem skiptir fólk máli. Fólk tekur afstöðu og skiptist afdráttarlaust í tvo hópa; með eða á móti. Já það er gaman að þessu, svo sannarlega.

Á morgun kemur Hagnaðurinn heim (að ég held) og er það afar hressandi. Eitthvað er þó verið að tala um að fyrirhugað vinnupartý sem Hagnaðurinn var afar áhugasamur um verði ekki haldið um helgina. Hvað ætli Hagnaðurinn segi við því? Spurning hvort að Ólafur Páll Gunnarsson geti ekki bara tekið að sér að halda partýið og svo gæti hann boðið öllum í tívolí.

Á morgun er leikur á móti KA. Við hljótum að vinna enda ég kominn aftur í hópinn, ég er reyndar ekki í liðinu en hverjum er svo sem ekki sama. Allavega allir að mæta og svo er alveg spurning um að fara að mæta með Daða Guð fánann á leiki, tilvalið að byrja á því á KR-vellinum á sunnudaginn. Og berjast!!!

15.7.03

Þunglyndi
Mig langar til að gráta.

13.7.03

Hér kemur skoðanakönnun




Á ég að láta hnakkaklippinguna fjúka?
View Results


Sælar!
Á föstudagskvöldið fór ég með Gústa, Gayríki og Jóhönnu í tívolíið í Smáralind. Við fórum í þetta eina tæki sem e-ð er varið í, ég held að það heiti Freak Out eða e-ð svoleiðis. Þetta var svo sem ágætis tæki en við vorum í miklum minnihluta þarna innan um öskrandi smástelpur, Gústi passaði þó vel inní þann hóp.
Ég vaknaði síðan eldsnemma, nánar tiltekið klukkan 0420, og keyrði Brynjar og Skrímslið út á flugvöll. Þeir félagar voru að fara til Parísar og fara síðan þaðan til Barcelona, ég get ekki neitað því að ég væri alveg til í að vera þarna með þeim.

Gærdeginum eyddi ég að mestu leyti með Keðjunni í allskonar vitleysu og blablabla. Um kvöldið fór ég síðan í bíó með Svartasauði og varð stórmyndin Hulk fyrir valinu. Það er skemmst frá því að segja að þessi mynd er algjör steypa. Fyrst eftir að ég kom út úr bíó hugsaði ég með mér af hverju í fjandanum ég hefði verið að eyða 800 krónum og 138 mínútum í þessa mynd sem var algjört rugl. Síðan svona eftir á að hyggja og eftir að hafa sofið á þessu þá hef ég ákveðið að þetta var kannski ekki alslæm mynd. Risastórt grænt skrímsli sem hoppar um öskrandi í eyðimörkinni, ræðst á flugvélar og berst við púðluhunda, hvað er hægt að biðja um það betra? Einnig er þetta saga sem tekur á flóru mannlegra tilfinninga og ekki er hún laus við margslunginn söguþráð. Snilldarmynd!

Mig langar til að þakka þeim fjölmörgu sem hafa hvatt mig til að halda hnakkanum áfram. Fólk hefur komið að máli við mig, ég hitti meðal annars Siggu og Magga í gær í Kringlunni og þeim fannst klippingin mjög fögur. Minn gamli vinur Þórir Hall var á sama máli en ég rakst reyndar líka á einstaklinga sem ég þekki sem hreinlega þekktu mig ekki og löbbuðu framhjá mér eins og ég væri bara einhver ókunnugur hnakki. Ég þarf að gera eins og Guðni og Eyjólfur og taka mér lengri umhugsunarfrest varðandi hvað ég geri. Læt ykkur vita en þangað til getið þið farið að hlakka til að sjá svarta manninn með permanent!
Er hommalegt að nota hárnæringu? Menn eru að velta þessu fyrir sér.

Ég heyrði það á Rás 2 um daginn að innan skamms færi af stað spurningakeppni á milli liðanna í Landsbankadeildinni í fótbolta. Það verður gaman að sjá hverjir koma til með að keppa fyrir okkar hönd. Það er allavega nokkuð ljóst að erfitt verður að velja mestu mannvitsbrekkurnar úr þessum hópi snillinga.
Set Later hér, farinn í sjúkraþjálfun á SUNNUDEGI!!!

Já, ég gleymdi því, á morgun vinnum við Framarar Fylkismenn á heimavelli okkar í laugardalnum. Meira um það síðar.

11.7.03

Látinn?
Nei ég er ekki látinn ég hef bara ekki nennt að blogga undanfarið, ég er svo upptekinn og mikilvægur maður sjáiði til. Ég hef reyndar legið undir ámæli og fengið harða gagnrýni undanfarna daga vegna bloggleysis og hef ég því ákveðið að þóknast dyggum aðdáendum mínum og þeysast fram á ritvöllinn á nýjan leik.
Ýmislegt hefur á daga mína drifið síðan síðast en ég nenni hins vegar ekki að segja frá því öllu þar sem þetta er fyrst og fremst friðþægingarblogg til að sefa æsta aðdáendur mína.

Ég fór í sumarbústarðaferð um síðustu helgi ásamt Hrútum (það er víst til eitthvert Hrútavinafélag, verð að tékka á því) og nokkrum öðrum valinkunnum einstaklingum. Ég mætti á laugardeginum ásamt Eika (hversu úldinn getur einn maður verið að innan???). Við byrjuðum á því að taka eitt stykki golfmót. Sigurvegari í flokki karlmanna 18-39 ára varð Kristinn, ég varð í öðru sæti og Skotinn í því þriðja. Í kvennaflokki varð hin sænska Atlikka Sörenstam að láta sér lynda annað sætið eftir hörkukeppni við hina íslensku Lindu. Um kvöldið fór ölvunarstig fólks smám saman hækkandi og ekki er laust við að maður hafi stundað einhverjar óbeinar kannabisreykingar. Stemningin var altént nokkuð góð eins og ávallt þegar farið er í bústað hins Steikta í Þjórsárdal.

Um daginn var haldið þriðja flokksstjóramótið í sumar. Í þetta skiptið var fámennt en góðmennt er keppt var í Pílukasti á Players, heimavelli Söndru. Skemmst er frá því að segja að Sandra sigraði, Haukur Hagnaður varð annar, Inda þriðja en við Heiða deildum 4-5. sæti. Fjarverandi voru Bjarni Þór, Jóna og Óli en þau verða vonandi mætt til leiks þegar næsta mót fer fram. Upp hefur komið sú hugmynd að keppa í borðtennis og hef ég stofnað til veðmáls við Indu. Inda sem er fyrrverandi Íslandsmeistari í greininni og hefur m.a. lagt að velli Guðmund Stephensen vildi upphaflega leggja 5000 kall undir en bakkaði svo út úr því og lagði til að við veðjuðum upp á kippu í staðinn. Ég samþykkti það því eins og máltækið segir: "betri er kippa í hendi en 5000 kall í skógi". Inda áttaði sig reyndar á því eftir á að það var ekkert allt of gáfulegt fyrir hana að veðja uppá bjór því að hún drekkur ekki slíkan mjöð. Þetta er því nokkurs konar win/win situation fyrir mig. Reyndar er pottþétt að ég kem til með að vinna Induna en ef hið óhugsandi gerist þ.e.a.s. að sól skín á hundsrassgat eða Inda sigrar þá drekk ég bara kippuna sjálfur því ekki gerir hún það.

Ég var að tala við Arnie og það getur verið að drengurinn verði orðinn bíleigandi áður en deginum er lokið, spennandi að fylgjast með því. Annars er vert að geta þess að Keðja ein í Grafarholti er orðin bíleigandi og ekur nú um á glæsikerru mikilli, Suzuki Swift '91. Kerra þessi er rauð á lit og með sanni má segja að Keðjan hafi gert kjarakaup þar sem hún greiddi aðeins 120 þús. krónur íslenskar fyrir. Þetta er nánast gjafaverð.

Síðan má geta þess að lokum að ég er að spá í að láta Hnakkaklippinguna góðu fjúka áður en helgin er úti. Þeir sem eiga eftir að berja listaverkið (klippinguna sko) augum verða því að hafa samband og við getum ákveðið stund og stað. Ástæða þess að klippingin verður látin taka pokann sinn er ekki sú að hún sé ekki flottasta klipping sem sést hefur heldur sú að ekki hefur verið staðið við gerða samninga og undirritaður hefur ekki fengið í hendur alla þá peninga sem honum var heitið. Ef einhverjir eru ósáttir við þetta geta þeir haft samband við lögfræðing minn Helga Þorsteinsson á lögfræðistofunni Buffið og Skrímslið Inc.

Jæja ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili. Er farinn að þrífa þýska eðalvagninn minn og hver veit nema ég skreppi svo í sund í þessu blíðviðri. Hmmm...yes.