29.4.03

Gleði!
Í dag tók ég fyrsta prófið af fimm. Prófað var í öryggi og samvinnu í alþjóðakerfinu og má segja að ég hafi rúllað því upp. Þá eru bara fjögur próf og tvær ritgerðir eftir.
Hinn knái Svartisauður varð 22 ára á sunnudaginn og er við hæfi að óska honum til hamingju með það. Síðan átti hún Harpa líka 22 ára afmæli í gær og er tilvalið að óska henni líka til hamingju (ef svo ólíklega vill til að hún lesi þetta). Í dag fagnar síðan hann Viðar Guðmundsson -jú þú giskaðir á það- 22 ára afmæli sínu. Ég er reyndar alls ekki viss um að það taki því að óska honum til hamingju með það því það er pottþétt að hann les þetta ekki.
Jæja, Ungverjinn bara brunninn og svona.

24.4.03

Guðmundur Steinarsson í FRAM!
Ég var að lesa það á netinu rétt í þessu að Guðmundur Steinarsson væri kominn í FRAM. Það er ekkert verið að láta okkur leikmenn vita, maður les þetta bara í fjölmiðlum. En þetta er annars bara gott mál.
Fyrir ykkur viðvaningana sem vitið ekkert hvað ég er að tala segi ég hmm...yes.
Annars er gaman að sjá hversu mikil stemning er í kommentunum.
Já já.

23.4.03

Keðjan er óborganleg
Keðjan sendi mér eitt sinn eftirfarandi sms:
"Hefurðu einhvern tímann verið að kúka og það kemur svona varasalvalykt? Jæja ég lenti í því um daginn en það furðulega vildi til að ég var með varaþurrk."
Hahahahahahahahahahahaha!!!!! Ótrúleg þessi keðja.
Buffy er hér
Þið sem voruð farin að örvænta getið tekið gleði ykkar á ný því Buffhrúturinn er hér.
Ofureinföld ástæða er fyrir miklu bloggleysi undanfarið. Þannig er að maður er búinn að vera víða erlendis og svo er gríðarlega mikið að gera auk þess sem ég nenni ekkert að vera að standa í þessu bloggi alltaf.
Það er mér sérstök ánægja að sjá að Lingurinn og Sigrún eru farin að tjá sig á bloggsíðum í óhóflegu magni og oft á tíðum á alveg óskiljanlegan hátt. Gaman að því. Svo er einnig gaman að því að Svartisauðurinn er búinn að taka niður kommentakerfið á síðunni sinni og farinn að benda fólki á að kommenta bara í mitt kommentakerfi í staðinn ef það hefur eitthvað að segja. Það er alltaf gott að geta komið sauðnum svarta til hjálpar einkum nú á erfiðri stund.
Páskarnir eru nýbúnir eins og flestir hafa tekið eftir. Þrátt fyrir að vera orðinn háaldraður hrútur fékk Buffhrúturinn eitt stykki páskaegg að gjöf. Málshátturinn í þessu annars ágæta eggi var brjálað fyndinn. Hann var eitthvað á þessa leið: "Ekki eru allar dyggðir í andliti fólgnar" Eða með öðrum orðum: "Djöfull ertu ljótur!!!" En Buffhrúturinn lætur það ekki á sig fá.
Í kvöld horfði ég á einhvern mesta rugl-fótboltaleik sem ég hef séð. Man. Utd. vann Real Madrid 4-3 en komst samt ekki áfram í Meistaradeildinni. Þar með verð ég að éta ofan í mig þá spádóma mína að Diego Forlan tryggi United sigur í Meistaradeildinni á Old Trafford þann 20. maí. Ég nenni ekki að eyða fleiri orðum í þennan leik. Hrós kvöldsins fær þó Dr. Ísleifur fyrir að tilkynna það að AC Milan hefði unnið Ajax og væri komið áfram, mönnum sem ætluðu að horfa á leikinn til mikillar ánægju. Mikil snilld!
Lakers drullu-skíttöpuðu fyrir Kevin Garnett og félögum, hvað er að gerast?
Á morgun fer fram stórleikur FRAM og ÍA í deildarbikarnum. Við erum að sjálfsögðu komnir áfram en brjálaði dvergurinn og hans menn á skaganum eru að berjast fyrir lífi sínu. Þetta verður bara létt fyrir okkur og sennilega frekar leiðinlegt á að horfa og hvet ég því engan til að mæta í Egilshöll klukkan 1400.
Ég set þá bara L núna.

17.4.03

Kominn á Klakann
Buffhrútur er mættur aftur eftir langa fjarveru og dvöl í Danmörku. Nánari fréttir úr æfingaferð Framara koma síðar.
Í kvöld vann United ensku deildina þegar Arsenal stal jafntefli gegn þeim á Highbury.
Begga var valin ljósmyndafyrirsæta Reykjavíkur og dóttir forstjóra MS var valin ungfrú Reykjavík. Gaman að þessu.
Michael Jordan er í þessum töluðu orðum að spila sinn síðasta leik á ferlinum. Nákvæmlega núna er síðasti hálfleikur hans á ferlinum að byrja, verst að Washington er að skíttapa og Jordan er bara kominn með 6 stig en hann hlýtur að ná sér á strik kallinn og skora einhver 30 stig - annað væri skandall.

11.4.03

Japl, jaml og fuður
Í dag er ég ríkari en í gær.

9.4.03

Bagdad fallin?
Menn eru að tala um að Bagdad sé fallin og að Bandaríkjamönnum sé tekið fagnandi af Írökum í miðborg höfuðborgarinnar. Maður veit þó ekki, það er ekki gott að segja hvað er rétt og hvað er rangt í fréttaflutningi af þessu stríði. Við skulum þó vona að eitthvað sé til í þessu og að stríðið taki brátt enda. En þá tekur við gífurlega umfangsmikið uppbyggingarstarf sem við Íslendingar og hinar staðföstu þjóðirnar í "The Coalition of the Willing" þurfum að sjá um. Svo er ekkert sem segir að Bandaríkjamenn láti hér við sitja. Fara þeir ekki bara næst inn í Norður-Kóreu eða Íran? Hver veit? Hvað veit ég um það, ég er bara Buffhrútur.
Hinn sænski Atli kom að máli við mig í gær og spurði mig hvernig mér litist á að mæta í partý á laugardaginn. Ég sagði að mér litist bara frekar illa á það ef við tökum það með í reikninginn að ég verð bara alls ekkert staddur á landinu á laugardaginn. Hvar verður Buffhrúturinn? gætu ýmsir þá spurt sig. Buffhrúturinn verður staddur í Danaveldi við knattspyrnuæfingar. Skemmst er frá því að segja að Buffhrúturinn er afar vonsvikinn með framgöngu Atla í þessu máli þar eð Buffhrúturinn hefur verið einn helsti hvatamaður þess í vetur að haldið verði partý í Partýhöllinni og svo er tækifærið bara gripið á lofti þegar Buffhrúturinn fer af landi brott og slegið upp veislu. Þetta er náttúruleg framkoma sem sæmir ekki sænskum hrúti og nokkuð ljóst að Buffhrúturinn mun ekki nefna Partýhöllina framar sem sinn uppáhaldsskemmtistað í þeim fjölmörgu viðtölum sem tekin eru við hann.
Hér má annars nálgast heimsíðu félagsins sem að Buffhrúturinn og aðrir Framarar munu heimsækja í Danmörku á laugardaginn. Við munum dvelja þarna í góðu yfirlæti fram á miðvikudag. Þessi ágæti bær Farum, sem er rétt fyrir utan Köben, hefur annars helst unnið sér það tli frægðar að á síðasta ári var skandall ársins sá í Danmörku sá að bæjarstjórinn eyddi mörgum milljörðum í að byggja einhvern þvílíkt flottan fótboltavöll (fyrir þetta Farum-lið sem ég held að geti nú ekki mikið - þetta er svona svipað og að Afturelding væri allt í einu komið með 10 þús. manna völl og þvílíka aðstöðu) og hann setti auðvitað bæinn á hausinn og gott ef hann situr ekki inni í dag, Árni Johnsen þeirra Dana. Gaman að þessu.

7.4.03

Lókur í Grease!
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum mun lókurinn Benedikt Einarsson, betur þekktur sem Bensi lókur, fara með hlutverk í söngleiknum Grease í sumar. Mun hann þar leika á móti Birgittu Haukdal og spurning hvort hann fái að sleikja á henni rassinn. Það er allavega nokkuð ljóst að Hrútarnir munu fjölmenna á frumsýningu þessa skemmtilega söngleiks og hvetja lókinn til dáða.
Nú líður líka senn að því að farið verði að skipuleggja hið fyrirhugaða einvígi Hrútanna gegn lókunum sem haldið verður í sumar, nánar auglýst síðar.
Svartisauður hættur að blogga!
Það hljóta að vera stærstu og jafnframt sorglegustu tíðindi síðustu daga að sauðurinn svarti hafi tekið þá ákvörðun að hætta að blogga. Buffhrútur trúir vart þessum fregnum og hvetur þann svarta til að endurskoða afstöðu sína.
Langt er einnig um liðið síðan Buffhrútur mundaði lyklaborðið síðast og er miklum önnum um að kenna.
Margt hefur drifið á dagana síðan síðast var bloggað. Fyrst ber að nefna að FRAM sigraði Blika í æfingaleik 4-0. Gunnar hinn rauði (grái) Bachman (ekki skyldur Hanna) náði ekki að standa við gefin loforð um þrennu og eitt fótbrot og því varð ekkert af því að hann mætti í hinum víðfræga græna galla á FRAMboð meistaraflokks sem haldið var á föstudaginn. Þar voru samankomnir núverandi og fyrrverandi leikmenn FRAM ásamt stuðningsmönnnum. Stemning var hreint ágæt og náði hún hápunkti þegar efnt var til keppni misdrukkinna manna í að skalla á milli uppi á sviði. Diskar og glös brotnuðu og hápunktur gleðinnar var þegar Hallkell nokkur gerði sér lítið fyrir og gerði örvæntingarfulla tilraun til að skalla sendingu sem reyndist of há, ekki vildi betur til en svo að Hallkell flaug á hausinn aftur fyrir sig og hafnaði inni í eldhúsi þaðan sem heyrðust mikil brothljóð - vakti þetta mikla kátínu viðsataddra. Við yngri leikmenn ákváðum að þetta væri orðin of mikil vitleysa fyrir okkar smekk og ákváðum að skella okkur á tónleika á Grand Rokk. Þar leiddu saman hesta sína meistari Megas og dúettinn síhressi Súkkat og úr varð hið mesta Megasukk. Skemmst er frá því að segja að meistarinn lét bíða eftir sér í einhverja tvo tíma og loksins þegar hann byrjaði svo að spila var hann í tómu rugli. Það skildist ekki orð af því sem að maðurinn sagði og afskræmdi hann nánast mörg af sínum hugljúfu lögum. Einum tónleikagesta varð á orði að það væri ekki hægt að bjóða fólki upp á að mæta bara á svæðið og kúka á sviðið þó að maður væri meistari - Andri Fannar var algjörlega ósammála þessu og var hæstánægður með Megas.
Á laugardaginn fór ég út að borða með gamla settinu og frænda í tilefni þess að sá gamli átti afmæli. Að því loknu fórum við svo nokkrir Hrútar og einn lókur og hlustuðum á Skoskahrútinn Tumas renna í gegnum verkin sem hann á að spila þegar hann tekur 7. stig í píanóleik næsta miðvikudag. Skotinn stóð sig mjög vel og var nú bara ansi lipur á flyglinum enda væri annað skandall þar sem maðurinn er kominn á 7. stig. Buffhrúturinn óskar honum góðs gengis á miðvikudaginn.
Í gærkvöldi fór ég síðan á íslensku myndina Nói Albínói. Myndin var nú bara mjög góð verð ég að segja og mæli ég með henni.
Helgin var mjög góð í enska boltanum. United vann alltof auðveldan sigur á Liverpool og Arsenal gerði aðeins jafntefli við Joey og Aston Villa. Síðan er stórleikurinn á móti Real á morgun held ég. Ég lofa því hér með að United vinnur bæði ensku deildina og Meistaradeildina.
Takk og later!