7.4.03

Svartisauður hættur að blogga!
Það hljóta að vera stærstu og jafnframt sorglegustu tíðindi síðustu daga að sauðurinn svarti hafi tekið þá ákvörðun að hætta að blogga. Buffhrútur trúir vart þessum fregnum og hvetur þann svarta til að endurskoða afstöðu sína.
Langt er einnig um liðið síðan Buffhrútur mundaði lyklaborðið síðast og er miklum önnum um að kenna.
Margt hefur drifið á dagana síðan síðast var bloggað. Fyrst ber að nefna að FRAM sigraði Blika í æfingaleik 4-0. Gunnar hinn rauði (grái) Bachman (ekki skyldur Hanna) náði ekki að standa við gefin loforð um þrennu og eitt fótbrot og því varð ekkert af því að hann mætti í hinum víðfræga græna galla á FRAMboð meistaraflokks sem haldið var á föstudaginn. Þar voru samankomnir núverandi og fyrrverandi leikmenn FRAM ásamt stuðningsmönnnum. Stemning var hreint ágæt og náði hún hápunkti þegar efnt var til keppni misdrukkinna manna í að skalla á milli uppi á sviði. Diskar og glös brotnuðu og hápunktur gleðinnar var þegar Hallkell nokkur gerði sér lítið fyrir og gerði örvæntingarfulla tilraun til að skalla sendingu sem reyndist of há, ekki vildi betur til en svo að Hallkell flaug á hausinn aftur fyrir sig og hafnaði inni í eldhúsi þaðan sem heyrðust mikil brothljóð - vakti þetta mikla kátínu viðsataddra. Við yngri leikmenn ákváðum að þetta væri orðin of mikil vitleysa fyrir okkar smekk og ákváðum að skella okkur á tónleika á Grand Rokk. Þar leiddu saman hesta sína meistari Megas og dúettinn síhressi Súkkat og úr varð hið mesta Megasukk. Skemmst er frá því að segja að meistarinn lét bíða eftir sér í einhverja tvo tíma og loksins þegar hann byrjaði svo að spila var hann í tómu rugli. Það skildist ekki orð af því sem að maðurinn sagði og afskræmdi hann nánast mörg af sínum hugljúfu lögum. Einum tónleikagesta varð á orði að það væri ekki hægt að bjóða fólki upp á að mæta bara á svæðið og kúka á sviðið þó að maður væri meistari - Andri Fannar var algjörlega ósammála þessu og var hæstánægður með Megas.
Á laugardaginn fór ég út að borða með gamla settinu og frænda í tilefni þess að sá gamli átti afmæli. Að því loknu fórum við svo nokkrir Hrútar og einn lókur og hlustuðum á Skoskahrútinn Tumas renna í gegnum verkin sem hann á að spila þegar hann tekur 7. stig í píanóleik næsta miðvikudag. Skotinn stóð sig mjög vel og var nú bara ansi lipur á flyglinum enda væri annað skandall þar sem maðurinn er kominn á 7. stig. Buffhrúturinn óskar honum góðs gengis á miðvikudaginn.
Í gærkvöldi fór ég síðan á íslensku myndina Nói Albínói. Myndin var nú bara mjög góð verð ég að segja og mæli ég með henni.
Helgin var mjög góð í enska boltanum. United vann alltof auðveldan sigur á Liverpool og Arsenal gerði aðeins jafntefli við Joey og Aston Villa. Síðan er stórleikurinn á móti Real á morgun held ég. Ég lofa því hér með að United vinnur bæði ensku deildina og Meistaradeildina.
Takk og later!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home