21.5.05

Þannig fór um sjóferð þá
United tapaði í dag gegn Arsenal í bikarúrslitum. Leikmenn Arsenal tryggðu sér sigur í vítaspyrnukeppni eftir að Jens Lehmann varði frá Paul Scholes. Það er hins vegar óskiljanlegt hvernig United fóru að því að skora ekki í leiknum, voru miklu betri og fengu urmul af færum. En svona er þetta víst, betra liðið vinnur ekki alltaf í fótbolta.
Áfram Noregur!

16.5.05

Próf
Nú eru allir búnir í prófum...eða hvað? Aldeilis ekki. Ég bjó nefnilega til svona próf sem er svo vinsælt um þessar mundir og svo skemmtilegt. Hamist!
http://www.quizyourfriends.com/yourquiz.php?quizname=050515211129-722363

9.5.05

Gauti Laxdal
Undanfarið hef ég fengið undarleg sms frá dularfullum aðila á undarlegustu tímum sólarhringsins. Síðasta sms kom klukkan 0130 í nótt og hljóðaði svo: "Vika í mót og þú með fullt rassgat af skít. Hálfvitinn þinn." Þetta sms var sent á netinu og sá óprúttni aðili sem það sendi greindi ekki frá nafni sínu. Sms-ið bar þó handbragð ákveðins einstaklings sem ekki verður nafngreindur hér.
Það er svo skemmtileg tilviljun að í kommentunum við síðustu færslu mína hér á síðunni kveður maður sem kallar sig Gauta Laxdal sér hljóðs. Skilaboð hans voru á þessa leið: "Daði Guðmundsson með fullt rassgat af skít!" Sjö mínútum seinna skrifar Stiftamtmaður nokkur skilaboð sem hljóðuðu svo: "Hvað er í gangi hérna?" Það er eðlilegt að Stiftamtmaðurinn spyrji þessarar spurningar enda er hann ekki Gauti Laxdal.....eða hvað?
Nú kynnu menn að spyrja sig, hver er þessi Gauti Laxdal? Aðrir (ekki margir) kynnu að spyrja sig, hver er þessi Stiftamtmaður eiginlega? Við þessum spurningum eru einföld svör. Gauti Laxdal er fyrrverandi leikmaður Fram í knattspyrnu. Stiftamtmaðurinn er fyrrverandi leikmaður Fram í knattspyrnu. Gauti Laxdal er örvfættur. Stiftamtmaðurinn er örvfættur. Gauti var valinn efnilegasti leikmaður Íslandsmótsins árið 1986, sama ár og Gummi Torfa var valinn besti leikmaður mótsins. Stiftamtmaðurinn var (og er) geysiefnilegur leikmaður sem lék geysivel undir stjórn hins sama Gumma Torfa árið 2000. Frammistaða hans skilaði honum ekki titlinum efnilegasti maður Íslandsmótsins en hann var ekki langt frá því. Gauti Laxdal átti við meiðsli að stríða, hætti knattspyrnuiðkun (um tíma) og einbeitti sér að háskólanámi. Stiftamtmaðurinn hefur átt við meiðsli að stríða og hefur lagt skóna á hilluna (tímabundið) og einbeitir sér nú að háskólanámi.
Það er sem sagt gríðarlega margt sem tengir þessa tvo heiðursmenn saman, eiginlega ótrúlega margt. Skyldu þeir nokkuð vera einn og sami maðurinn? Maður spyr sig.

6.5.05

Forskot á sæluna og slökkvistörf
Í dag og á miðvikudaginn endurnýjaði ég kynni mín við Bækistöð 4. Þannig er mál með vexti að á vorfagnaði Fram síðastliðið laugardagskvöld kom að máli við mig maður sem flestir þekkja undir nafninu Kastró. Tjáði hann mér að nú stæðu yfir vorhreingerningar í Árbæjar- og Breiðholtshverfum. Falaðist hann jafnframt eftir starfskröftum mínum og stakk upp á að ég tæki forskot á sumarsæluna og tæki nokkra daga með köllunum. Ég er því búinn að vera tvo daga og verð aftur á morgun (já á laugardegi) í vinnunni, fer svo í frí og byrja aftur seinna í maí. Það þarf ekki að taka það fram að þessir tveir dagar hafa verið óhemjuleiðinlegir og lengi að líða.
Í dag dró þó til tíðinda því ég brá mér í gervi slökkviliðsmanns. Það kom þó ekki til af góðu en þannig er mál með vexti að í morgun varð bílslys á Breiðholtsbrautinni (rétt hjá Reiðhöllinni og þar). Svo virðist sem maður á sextugs- eða sjötugsaldri hafi fengið aðsvif og misst stjórn á bíl sínum. Bíllinn keyrði stjórnlaust út í móa þar sem hann loks stöðvaðist en þá kviknaði í bílnum. Vegfarendum tókst að bjarga ökumanninum úr brennandi bílnum en þá upphófst mikill sinueldur. Ekki tókst að bjarga lífi mannsins og var hann úrskurðaður látinn skömmu síðar. Já og ég mætti sem sagt á svæðið ásamt vinnufélögum mínum með þar til gerð tæki og tól og barðist við eldinn. Tókst okkur að ráða niðurlögum hans og er þetta örugglega eitt það eftirminnilegasta sem ég hef lent í á starfsævi minni hjá Kastró (og hef ég nú lent í mörgu eftirminnilegu...hmmm...yes). En þetta er reyndar frekar óhugnalegt ef maður pælir í því að þetta var annað banaslysið sem verður á u.þ.b. nákvæmlega sama stað á rétt rúmlega sólarhring. Í gærmorgun lést nefnilega stelpa um tvítugt þegar bíll hennar fór út af veginum u.þ.b. 200 metrum frá þeim stað sem slysið varð í morgun.
Já það er ekki gaman að þessu.
Ég minni svo á Norðurlandamótið í Júdó sem fram fer í TBR húsinu á morgun.

3.5.05

Norway 12 points!
Það er klárt að norska lagið mun fá mitt atkvæði í Eurovision í ár. Snilld!