6.5.05

Forskot á sæluna og slökkvistörf
Í dag og á miðvikudaginn endurnýjaði ég kynni mín við Bækistöð 4. Þannig er mál með vexti að á vorfagnaði Fram síðastliðið laugardagskvöld kom að máli við mig maður sem flestir þekkja undir nafninu Kastró. Tjáði hann mér að nú stæðu yfir vorhreingerningar í Árbæjar- og Breiðholtshverfum. Falaðist hann jafnframt eftir starfskröftum mínum og stakk upp á að ég tæki forskot á sumarsæluna og tæki nokkra daga með köllunum. Ég er því búinn að vera tvo daga og verð aftur á morgun (já á laugardegi) í vinnunni, fer svo í frí og byrja aftur seinna í maí. Það þarf ekki að taka það fram að þessir tveir dagar hafa verið óhemjuleiðinlegir og lengi að líða.
Í dag dró þó til tíðinda því ég brá mér í gervi slökkviliðsmanns. Það kom þó ekki til af góðu en þannig er mál með vexti að í morgun varð bílslys á Breiðholtsbrautinni (rétt hjá Reiðhöllinni og þar). Svo virðist sem maður á sextugs- eða sjötugsaldri hafi fengið aðsvif og misst stjórn á bíl sínum. Bíllinn keyrði stjórnlaust út í móa þar sem hann loks stöðvaðist en þá kviknaði í bílnum. Vegfarendum tókst að bjarga ökumanninum úr brennandi bílnum en þá upphófst mikill sinueldur. Ekki tókst að bjarga lífi mannsins og var hann úrskurðaður látinn skömmu síðar. Já og ég mætti sem sagt á svæðið ásamt vinnufélögum mínum með þar til gerð tæki og tól og barðist við eldinn. Tókst okkur að ráða niðurlögum hans og er þetta örugglega eitt það eftirminnilegasta sem ég hef lent í á starfsævi minni hjá Kastró (og hef ég nú lent í mörgu eftirminnilegu...hmmm...yes). En þetta er reyndar frekar óhugnalegt ef maður pælir í því að þetta var annað banaslysið sem verður á u.þ.b. nákvæmlega sama stað á rétt rúmlega sólarhring. Í gærmorgun lést nefnilega stelpa um tvítugt þegar bíll hennar fór út af veginum u.þ.b. 200 metrum frá þeim stað sem slysið varð í morgun.
Já það er ekki gaman að þessu.
Ég minni svo á Norðurlandamótið í Júdó sem fram fer í TBR húsinu á morgun.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home