27.5.04

Kominn upp úr holunni?
Í gær skilaði ég BA-ritgerðinni minni. 45 blaðsíður og 14.117 orð af gríðarlegu skemmtanagildi. Þeir sem vilja geta nálgast eintak hjá mér. Gústi er búinn að lesa og ég veit fyrir víst að hann skemmti sér konunglega.
Ég er búinn að fá eina einkunn sem kom mér þægilega á óvart. Nú bíð ég bara eftir einkunnum úr Aðferðafræði III og einu öðru námskeiði. Nái ég þessu tvennu er það síðan útskrift 19. júni, á kvennadaginn. Ekki veit ég þó hvað tekur við í mínu lífi að því loknu. Allar góðar uppástungur vel þegnar.
Á þriðjudaginn töpuðum við Framarar fyrir Skagamönnum á heimavelli. Ekki góð frammistaða en það er bara að taka næsta leik á móti Valdimar Kekic og félögum í rokinu í Grindavík.
Í gær fór ég á Pixies tónleikana í Kaplakrika. Mætt voru auk mín Gútti, Arnie, Brundi, Skrímsli og Bryndís. Þarna voru líka Atli og Tumi og u.þ.b. 2500 aðrir. Fínustu tónleikar alveg hreint, já það held ég nú. Ég gerði heiðarlega tilraun til að taka hluta af nokkrum lögum upp á símann minn - það tókst ekki.
Brynjar átti afmæli í gær og Erling í fyrradag. Til hamingju með það drengir!
Svo byrjar maður bara að vinna á morgun. Það verður stemning.
Later!

20.5.04

Það er kalt á toppnum
Jæja best að fara að hætta þessu kjaftæði og klára þessa ritgerð.
Later!

10.5.04

Önnum kafinn Hrútur
Maður stendur í ströngu þessa dagana. Var að rumpa af tveimur köflum í BA-ritgerð sem ég þarf að skila í dag. Lokaskiladagur á ritgerðinni er síðan 24. maí og nokkuð ljóst að vel verður haldið á spöðum þangað til. Nú er ég hins vegar að byrja að læra fyrir aðferðafræði III viðbjóðinn sem ég fer í á föstudaginn. Nokkuð ljóst að ef ég næ ekki þessu prófi þá mun ég aldrei útskrifast úr þessum blessaða skóla.
Ég er síðan loksins byrjaður að hreyfa mig eftir fjögurra mánaða meiðsli. Það er ekki laust við að maður sé töluvert ryðgaður og formið hefir verið betra. Minn ástkæri rúmenski þjálfari hefur líka undanfarna daga gert í því að taka mig á "I kill you!!" æfingar. Í gær var til dæmis suicide hlaup með 16 keilum. Já 16 keilum, ekki 4-5 keilum eins og er svo gjarnan. Það var stemning.
Sáu menn ekki örugglega Stiftamtmanninn í fréttunum á laugardaginn. Kappinn var tekinn í viðtal í tilefni þess að tillaga hans var verðlaunuð í samkeppni Landsbankans og Reykjavíkurborgar um bætta borg eða eitthvað álíka. Tillaga Stiftamtmannsins var sú að reisa styttu af Steingrími J. Sigfússyni í miðri Reykjvíkurtjörn. Styttan myndi svo vera búinn þeim eiginleikum að spúa eldi í tíma og ótíma. Sannarlega snilldarhugmynd hjá Stiftaranum og enn einu sinni sýnir það sig að fíflagangur margborgar sig.
Jæja hornskakkur snúningur og forsendur dreifigreiningar, here I come!