24.3.04

Partýið góða
Á laugardaginn var haldið partý á Ölveri. Ég var í því partýi ásamt mörgu góðu fólki. Partý þetta var til styrktar okkur Frömurum og við því látnir gera alls konar vitleysu í fjáröflunarskyni. Fyrst var haldin spurningakeppni milli leikmanna og stjórnarmanna. Í liði leikmanna vorum ég, Raggi Árna og Viddi Keðja. Skemmst er frá því að segja að við unnum öruggan og frekar niðurlægjandi sigur á misgreindu liði stjórnarmanna sem var skipað þeim Binna, Finni og Adda Add. Einn af hápunktum kvöldsins var svo þegar Viðar var fenginn á svið til að segja söguna af því þegar Gummi Torfa útskýrði fyrir honum hinn heilaga sannleik og tilgang lífsins, þ.e. að skíta í hádeginu. Næst á dagskránni var Karaoke-keppni sem gekk þannig fyrir sig að fólk borgaði pening fyrir það að sjá leikmenn stíga á svið (Gústi) og syngja lög sem fólkið valdi. Mínir svokölluðu vinir, Ljóti og Gyðingurinn, létu fé af hendi rakna og í staðinn "flutti" ég lagi? Gangstas Paradise sem Coolio kallinn gerði frægt hér um árið. "Söngur" minn var frekar vafasamur en ég komst þó betur frá mínu þó ég segi sjálfur frá en þeir félagar Helgi Ólafur og Bjarni Hólm sem voru vægast sagt skelfilegir.
Ég fékk hins vegar uppreisn æru í lok kvöldsins þegar hið fallega tríó sem skipað var sjálfum mér, Viðari og Andra Fannari sló í gegn. Við fluttum hið frábæra lag "Stöngin inn" í okkar útsetningu á órafmagnaðan hátt. Jón Sigurðsson, 500 kall, hitaði upp fyrir okkur með einhverju BeeGees rauli. 500 kallinn fær þó props fyrir að hafa fengið gyðinginn Atla með sér á dansgólfið. Þegar þeir félagar höfðu lokið sér af var tríóið frábæra kallað á svið. Áhorfendur vissu ekki hverju þeir áttu von á. Þegar fólk áttaði sig á hvað var að gerast og að þetta var history in the making þá ætlaði hreinlega allt vitlaust að verða. Fólk reis úr sætum, hrópaði og kallaði og söng með. Þakið virtist hreinlega ætla af Ölveri. Við vorum klappaðir upp og tókum eitt aukalag æstum múgnum til mikillar ánægju. En að öllu gamni slepptu þá eru menn að tala um að fara með þetta lag í hljóðver enda þykir það öllu hressara en núverandi stuðningsmannalag Fram "Framarar já Framarar, Framarar já Framarar."
Þorvaldur Makan sigraði þá Ómar og Fróða með miklum yfirburðum í dragkeppni og í sannleika sagt fannst mér hann fíla sig hættulega mikið í þessu hlutverki sínu.
Svo var einnig haldið happdrætti þar sem fjölmargir glæsilegir vinningar voru í boði. Meðal þess sem var í verðlaun var utanlandsferð fyrir tvo, sími að verðmæti 40.000 kr, málverk að verðmæti 50.000 kr. Frambúningar og landsliðsbúningar og fleira skemmtilegt. Ég keypti fimm miða en gerði mér nú ekki miklar vonir um vinning þar sem ég hef nú sjaldnast unnið í slíkum happdrættum. Það kom mér því þægilega á óvart þegar númerið 217 var lesið upp og ég áttaði mig á að ég var handhafi þess miða. Ég vatt mér upp á svið til að taka á móti utanlandsferðinni minni eða símanum mínum. Gleði mín var hins vegar skammvinn þegar mér var afhent gjafabréf frá SS að upphæð 5.000 kr. Kommon!!! Í eitt skipti vinn ég í happdrætti og hvað fæ ég??? Jú pulsur fyrir 5.000 kall. Andskotinn!!!
En í heildina var þetta hið ágætasta kvöld og við Andri og Viðar urðum sannkallaðar stjörnur á einni nóttu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home