11.9.03

Veldið að hruni komið?
Í dag gerðist sá sorglegi atburður að hið forna knattspyrnustórveldi FC Þéttir komst ekki upp úr riðli sínum í HM. Liðið lék fjóra leiki, vann einn, gerði tvö jafntefli og tapaði einum leik. Markatala liðsins eftir þessa fjóra leiki var 1-1. Ótrúleg markatala sem gefur vísbendingar um það að liðið hafi leikið leiðinlega knattspyrnu í stað sambaboltans sem það hefur verið þekkt fyrir í gegnum tíðina. Þessi tíðindi eru sorgleg í ljósi glæstrar sögu félagsins. FC Þéttir var stofnað af nokkrum ungum háskólanemendum á haustdögum árið 2001. Mikil stemning myndaðist strax í kringum liðið og dyggilega stutt af hundtryggum fylgismönnum sínum tókst því að tryggja sér þriðja sætið á sínu fyrsta HM. Svo sannarlega glæsilegur árangur. FC Þéttir mættu sterkir til leiks árið eftir en í ljós kom eins og svo oft vill verða að annað árið er mun erfiðara en það fyrsta. Þéttir spiluðu þó ansi vel og á köflum glimrandi skemmtilegan fótbolta. Annað árið í röð komust þeir í undanúrslit keppninnar en í þetta skiptið urðu þeir að láta sér lynda fjórða sætið. Í ár beið liðið hins vegar afhroð og er þar helst um að kenna arfaslakri frammistöðu hins sænska fyrirliða liðsins, Atla. Eini leikmaður liðsins sem náði að sýna sitt rétta andlit á þessu móti var markahæsti maðurinn, Arnþór (1 mark), sem lét erfið veikindi ekki hindra þáttöku sína í HM. Þess ber þó að geta að Þéttir söknuðu nokkurra sterkra leikmanna sem borið hafa uppi leik liðsins undanfarin ár en eru nú farnir utan í atvinnumennsku. Þar ber fyrstan að nefna markvörðinn ógurlega, Steina, sem leikur nú í Danmörku. Steini var svo sannarlega betri en Enginn í markinu og þótti hann bera af öðrum markvörðum undanfarin tvö HM. Annar sterkur leikmaður, Dabbi Kóngur, yfirgaf einnig liðið fyrir þetta mót og reynir hann nú fyrir sér í Bandaríkjunum. Ekki fer neinum sögum af afrekum hans þar en ef þau jafnast eitthvað á við þau tilþrif sem hann sýndi í tveimur síðustu HM má vænta þess að Kóngurinn hafi slegið rækilega í gegn þar vestra. Kóngurinn hafði blandað sér af krafti í baráttuna um markakóngstitilinn bæði 2001 og 2002 og því erfitt að vera án hraða hans. lipurðar, tækni og markheppni í framlínunni þegar mest á reyndi í HM 2003.
En það verður að líta á björtu hliðarnar (ef einhverjar eru). Það kemur HM eftir þetta HM og vonandi koma Þéttir enn þéttari til leiks á næsta ári þó að fátt bendi til þess eins og staðan er í dag. En liðið er ungt og með marga óreynda leikmenn innanborðs sem eiga vonandi eftir að koma tvíefldir til leiks að ári. Lykilatriði í framtíðarmöguleikum liðsins er að fyrirliðinn sænski, Atli Ísleifsson, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna til að rýma fyrir yngri mönnum. Atla eru þökkuð góð störf í þágu Þéttra og er það von mín að hann haldi áfram að starfa fyrir félagið en á öðrum vettvangi þó.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home