2.1.03

Gleðilegt ár!!!
Nú árið er liðið í aldanna skaut. Áramótin fóru fram með hefðbundnum hætti hjá mér. Gamlársdagurinn byrjaði á hinu svo kallaða Ollamóti í fótbolta sem haldið er árlega í minnsta íþróttahúsi landsins, íþróttahúsi Álftamýraskóla. Þar leiða saman hesta sína núverandi og fyrrverandi leikmenn Fram ásamt stjórnarmönnum. Bjór er drukkinn og bjór í verðlaun fyrir sigurliðið. Mitt lið var á toppnum að loknum hinum hefðbundnu tveimur umferðum sem að mótið átti að vera en þá gripu gömlu kallarnir sem öllu ráða til þess að bragðs að lengja mótið. Það kom svo öllum á óvart að spilað var þangað til að gömlu kallarnir voru komnir á toppinn og hirtu þeir því bjórinn. Restinni af deginum eyddi ég svo í að horfa á alls konar annála, Kryddsíld, Silfur Egils og annað slíkt. Sérstaklega var gaman að fylgjast með Doddson í Kryddsíld en kallinn varð brjálaður og hraunaði yfir Össur Skarphéðinsson, mjög skemmtilegt.
Maturinn var hefðbundinn og venju samkvæmt mjög góður. Áramótaskaupið fannst mér bara nokkuð gott og fór Magga, vinkona hennar Drífu, á kostum í hlutverki sínu í þættinum Bonus and the Beautiful. Einnig er vert að minnast á stórkostlega frammistöðu ungfrú diet coke: "Hvað heldurðu eiginlega að ég sé? Einhver IKEA-hilla eða e-ð?" Ég er viss um að Villi Vill er mjög stoltur af henni.
Þegar Skaupið var búið komu bróðir minn og Darri frændi til okkar og við skutum upp báðum rakettunum. Nóttin tók svo mun rólegri stefnu en ætlunin hafði verið þar sem mamma og pabbi ákváðu að kíkja í partý í smástund og ég var því heima með Darra og skemmtum við okkur vel yfir Stellu í Orlofi.
Kl 0230 komu foreldrar mínir loks heim og ég fór til Brynjars og hitti þar fyrir Gústa, Arnþór, Ella skrýtna og Sigrúnu og seinna komu Steini og María. Við skáluðum fyrir nýju ári og héldum svo niðrí bæ. Við fórum í e-ð partý á Kaffi Reykjavík og hittum þar fyrir marga gamla skólafélaga. Atli var þar á rassgatinu eins og venjulega og hrókur alls fagnaðar. Við stöldruðum stutt við, tókum síðan stutt rölt og förum síðan fljótlega heim. Sem sagt mjög rólegt gamlárskvöld og alkóhólmagn í algjöru lágmarki og ég er mjög sáttur við það þar sem að ég upplifði það í fyrsta skipti í langan tíma í dag að vera ekki nývaknaður og skelþunnur þegar ættin kemur í mat á nýársdag.
Já og svo vann United og Liverpool tapaði þannig að þetta reyndust verða ágætis áramót. Tumi var á Old Trafford og litlu munaði að hann yrði vitni skelfilegu tapi gegn Sunderland en geldingurinn á hægri kantinum og Paul Scholes björguðu deginum, til hamingju Tumi.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home