8.12.02

Bloggleysi og heyrnarleysi
Einhverjir hafa kannski tekið eftir því að það hefur verið heldur dauft yfir þessari síðu undanfarið. Málið er einfaldlega það að ég er í prófum og nenni ekki að eyða dýrmætum tíma mínum í þessa vitlesyu. Auk þess gerist ekkert verulega spennandi sem vert er að segja frá þegar maður situr við skrifborðið sitt kvölds og morgna og les misskemmtilegar bækur.
Það eina sem er fréttnæmt í mínu lífi þessa dagana er að ég er heyrnarlaus á hægra eyra og er búinn að vera það í nokkra daga eða síðan á fótboltaæfingu um daginn er Rikki markmaður tók sig til og hálfrotaði mig með hnitmiðuðu þrumuskoti sem small af ógurlegum fídonskrafti á eyra mínu (eyra mínu , þetta er svona eins og hann Eiki talar, notar aldrei greini. Já það er rétt Eiki er fífl). Ég hef reynt að leita mér lækninga en læknarnir hafa ekki getað hjálpað mér frekar en fyrri daginn. Fínt að vera læknir. Hver kannast ekki við það að fara til læknis, bíða í klukkutíma til þess eins að heyra hámenntaðan hálaunamanninn annaðhvort segja manni það sem maður vissi fyrir eða þá segja manni að hann geti því miður ekki hjálpað manni en þetta kosti samt sem áður 2500 krónur? Já, læknar eru ekki að gera góða hluti, pabbi hans Atla er samt fínn gaur. Ég bíð nú spenntur eftir því að Ungverjinn komi til landsins, hver veit nema hann geti hjálpað mér. Gertinn, þú ert mín eina von!
Annars er gaman að fylgjast með þeirri þróun sem er að verða á síðunni hans Atla þar sem systir hans, "vinkonur" hennar, "vinir" hans og einfaldlega allir sem vettlingi geta valdið eru farnir að hrauna yfir Kjötið sænska. Já þetta eru erfiðiðir tímar fyrir lítið Kjöt, jólin að koma og svona.

Partý hér!
Ég fékk snilldarfréttir á föstudagskvöldið. Hún Katla ætlar að halda partý 21. des. fyrir gamla bekkinn úr MR, 6.B. Það verður alger snilld , Kúlan og svona menn! Brynjar tilkynnti mér í gær að hann ætlaði að koma með mér og hver veit nema að Skrímsli nokkurt láti sjá sig líka því ekki er ólíklegt að ónefnd ljóshærð fótboltastelpa verði á svæðinu (og Skrímslinun leiðist nú ekki ljóshærðar fótboltastelpur eða bara ljóshærðar stelpur yfir höfuð). Svo erum við Atli líka að klára prófin þennan dag og það verður sennilega einhver vitleysa í stjórnmálafræðinni um kvöldið þannig að það má búast við þvílíku snilldarkvöldi á laugardaginn 21.

Mamma og Sammi!
Ég fékk aðrar ekki jafn skemmtilegar fréttir á föstudagskvöldið. Ég fór að sækja mömmu og pabba á e-ð jóla jóla fyllerí. Þannig var mál með vexti að þau höfðu setið á borði með Samúel Erni(Samma) og Ástu B. Þeir sem þekkja mig vita að Sammi er ekki einn af mínum uppáhalds íþróttafréttamönnum og að maðurinn getur farið óstjórnlega í taugarnar á mér stundum. Mömmu fannst það hins vegar ekkert tiltökumál að segja honum Samma sínum frá því. Þar sem þau sátu að sumbli tók mamma sig til og lýsti því fyrir Samma hvernig ég tek mig til og hermi eftir honum og geri grín að honum í hvert skipti sem hann birtist á sjónvarpsskjánum (sem er reyndar alltof oft). Sammi ætlaði ekki að trúa sínum eigin eyrum og sagði að enginn gæti hermt eftir honum, Jóhannes eftirherma hefði reynt það en ekki tekist. Ég kann móður minni hins vegar bestu þakkir fyrir að hafa gert mér þetta. Hún endaði svo kvöldið á að biðja Samma sinn að fara vel með litla drenginn hennar og Sammi lofaði því að sjálfsögðu. Ég vona nú bara að Sammi hafi verið of fullur til að muna eftir þessu annars gæti ég átt á hættu að vera lagður í einelti á næstu árum. Sammi þú ert fínn gaur!!!
Hvaða lærdóm má draga af þessari sögu? Jú, ekki hleypa foreldrum ykkar út úr húsi þangað sem áfengi er haft um hönd, það er ábyrgðarleysi.

Hann Stebbi!
Hann Stebbi er að gera góða hluti þessa dagana. Hann er búinn að vera að birta South Park-myndir af hinum ýmsu vinum sínum. Ég, Arnþór og Gústi fengum nýlega birtar myndir af okkur sem eru sérlega skemmtilegar. Það kom ekkert á óvart að Gústi aka Casper aka Gúlli aka DJ Fokkfeis aka da black sheep skyldi vera svartur á myndinni en að sama skapi kom það mjög á óvart að við Arnþór vorum líka svartir. Annars er myndin af Gústa algjör snilld og hreint nauðalík honum. Þú ert að gera góða hluti Stebbi!

Annars ætlaði ég nú bara að láta vita að ég nenni ekki að vera að standa í þessu bloggveseni í miðjum prófum.
Hmm...yes

Áhugasamir blogglesendur geta þó verið vissir um að finna e-ð skemmtilegt á síðu hins Steikta, þar er ávallt nóg um að vera. Nú eða þá þessi hér, klikkar seint.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Free [url=http://www.globalsba.com/online-invoicing.htm]make an invoice[/url] software, inventory software and billing software to design masterly invoices in minute while tracking your customers.

08 desember, 2012 10:33  

Skrifa ummæli

<< Home