4.11.02

Já já hér!
Buffhrúturinn er hér hressari sem aldrei fyrr. Það er mikið gleðiefni að annar Hrútur hefur ákveðið að slást í hóp Blogghrútanna en það er enginn annar en Sænskihrútur. Þetta er afar ánægjulegt og ég vona að fleiri fylgi í kjölfarið.
Núna er ég staddur á Hlöðunni og ætti að vera að skrifa ritgerð um Framsóknarflokkinn en þar sem það er jafnleiðinlegt og það hljómar þá nenni ég því ekki. Þess í stað ætla ég að rifja stuttlega upp atburði helgarinnar. Þetta var annars frekar róleg helgi eftir bull síðustu helga og fékk ég orð í eyra frá einum Beisa fyrir slaka frammistöðu. En ég er allavega ekkert fífl.
Laugardagurinn var tekinn snemma þetta skiptið. Við Steiktihrútur tókum daginn snemma og héldum sem leið lá niðrí höfuðstöðvar Heklu við Laugarveg með tvennt að markmiði; annars vegar að belgja okkur út af kökum og góðgæti (sem tókst fullkomlega) og hins vegar að vinna bíl í asnalegum kastleik sem stjórnað var af okkar gamla félaga og vinstrihandarskyttu Tryggva Sveinsyni (það tókst ekki. Leikurinn var þannig að maður fékk fimm litla bolta og þurfti að hitta þeim öllum innum ofurlitla rifu á rúðunni á nýju týpunni af Polo. Buffhrúturinn komst nálægt því að vinna sér inn tópaspakka en hann hefði fengist fyrir að hitta einum bolta. Steiktihrútur ákvað hins vegar að láta ekki til sín taka eftir að hafa orðið vitni að óförum félaga síns. En það var mál Hrúta að Tryggvi "Kristján Ara" Sveinsson hefði staðið sig frábærlega).
Þessu næst héldum við Hrútarnir á Hlöðuna þar sem við jukum námsframlag okkar þennan veturinn um 50% og lásum í tvo tíma. Hrútarnir urðu reyndar fyrir áreiti af hálfu gamals MR-ings. Félaginn gerði sér lítið fyrir og settist (lagðist) við hliðina á Buffhrútinum og steinsvaf og rak upp þvílíkar hrotur að Hrútarnir hafa ekki heyrt annað eins síðan Eikihrútur gisti heima hjá Rassahrúti '96.
Þar sem ekki var hægt að læra með þetta hrjótandi fífl við hliðina á sér ákváðu Hrútarnir að fara og horfa á enska boltann á Sportkaffi. Á leiðinni þangað komu þeir við á Hólavallagötunni, í kastala Duncan Campbell, og hirtu þar upp Skotahrút. Leikur Man. Utd og einhvers smáliðs var reyndar ekki eina ástæða þess að Hrútarnir ákváðu að fara á Sportkaffi. Þannig var nefnilega mál með vexti að stuðningsmenn hins skelegga og frambærilega tónlistar- og stjórnmálamanns Jakobs Frímanns Magnússonar að hittast og sýna Kobba stuðning sinn. Hrútarnir töldu sig vera að mæta á fjölmenna samkomu og það kom þeim því vægast sagt í opna skjöldu þegar þeir þeim var sagt af skipuleggjanda samkomunnar að þeir væru þeir einu sem væru mættir. Hann sagði reyndar jafnframt að Úlfar Linnet myndi bjóða þeim og aðeins þeim en ekki öðrum gestum staðarins upp á uppistand (sem var reyndar alger snilld). Auk þess bauð félaginn Hrútunum uppá bjór og allir voru sáttir. Málin fóru hins vegar að vandast þegar vinur hans Kobba bað Hrútana að koma bara með sér sem snöggvast niðrí Austurstræti og greiða Kobba litla atkvæði utankjörfundar. Hinir hraðlygnu Hrútar svöruðu því reyndar til að sökum mikils tímaskorts gætu þeir ómögulega veitt Kobbanum atkvæði sitt á þessari stundu en hétu því að gera það 9. nóvember nk. Þarna komst næstum því upp um Hrútana sem að sjálfsögðu voru einungis mættir til að gæða sér á fríum veitingum og njóta ókeypis skemmtiatriða. En samt sem áður áfram Kobbi! Þú ert maðurinn! Þú ert allavega ekkert fífl!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home